Annáll

Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi

Janúar
VÍS og Lífís voru að venju samkvæmt á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi fyrir árið 2016. Bæði félögin hafa verið á listanum frá upphafi eða sjö ár í röð. VÍS er nú í 23. sæti og Lífís í 64. sæti.

Creditinfo greinir ítarlega gögn sem liggja til grundvallar viðurkenningunni og birtir lista sinn yfir framúrskarandi fyrirtæki í kjölfarið. Aðeins um 1,7% íslenskra fyrirtækja komast á hann eða 624 talsins. 

Hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi að mati Creditinfo?

  • Er í lánshæfisflokki 1-3
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) og ársniðurstaða jákvæð þrjú ár í röð
  • Eiginfjárhlutfall 20% eða meira þrjú rekstrar ár í röð
  • Eignir hafi numið 80 milljónum eða meira þrjú ár í röð
  • Framkvæmdastjóri er skráður í hlutafélagaskrá
  • Fyrirtækið sé virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Skila ársreikningi fyrir 1. september 2016

Febrúar

Febrúar
Verkís hreppti Forvarnarverðlaun VÍS 2017 sem voru afhent á forvarnaráðstefnunni Vinnuslys – dauðans alvara sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu.

​Öryggisvitund efst í huga starfsfólks

Verkís er fyrirmyndar fyrirtæki í forvörnum og öryggismálum sem starfar samkvæmt ISO vottuðu gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi. Í allri starfsemi fyrirtækisins eru öryggis- og umhverfismál lögð til grundvallar og ríkar kröfur gerðar til undirverktaka og samstarfsaðila í þeim efnum. Starfsmenn Verkís eru meðvitaðir um hlutverk sitt sem öryggis- og forvarnafulltrúar og hefur það skilað sér svo eftir er tekið.
 
​​„Við erum afskaplega ánægð með að fá þessa viðurkenningu frá VÍS. Hjá Verkís er mikið lagt upp úr alhliða öryggi í öllum verkefnum og öryggisvitund á ávallt að vera okkar fólki efst í huga,“ segir Sveinn Ingi Ólafsson framkvæmdastjóri Verkís. „Þetta skilar sér með svo margvíslegum hætti. Mikilvægast er auðvitað að allir komi heilir heim. Svo er það beini samfélagslegi ávinningurinn af færri slysum og sá fjárhagslegi fyrir fyrirtækið. Fjárfesting í forvörnum og öryggi skilar sér jafnan margfalt til baka.“


Viðurkenningar fyrir góðan árangur í öryggismálum

Frumherji og Samhentir / Vörumerking fengu jafnframt viðurkenningu fyrir góðan árangur í forvörnum og öryggismálum. Þetta er í áttunda sinn sem VÍS verðlaunar viðskiptavini sína sem skara fram úr á þessu sviði. Frumherji er með starfsemi um allt land og þjónustar viðskiptavini sína á 32 starfsstöðvum. Fyrirtækið sinnir eftirlitsskoðunum á ýmsum sviðum og starfar eftir stífum faggildingarstöðlum og reglubundnu eftirliti hins opinbera í þeirri vinnu. Mikið er lagt upp úr faglegri þjálfun starfsmanna, góðum aðbúnaði og öryggi sem hefur endurspeglast í fátíðum slysum hjá fyrirtækinu.
 
Samhentir umbúðalausnir og Vörumerking eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í alhliða lausnum fyrir mismunandi atvinnugreinar og iðnað. Frá upphafi hafa öryggismál og forvarnir verið í öndvegi og stjórnendur leitt það starf. Sé þörf á úrbótum er ráðist í þær strax, vinnbrögð eru öguð og öryggisvitundin skýr.

Mikið stuð á móti þróttar

Maí
Laugardalurinn iðaði af lífi í flottu veðri á VÍS móti Þróttar sem haldið var í mars. Leikgleðin skein úr hverju andliti en leikið var í 6., 7. og 8. flokki karla og kvenna.  Mótið gekk vel og iðkendur, þjálfarar, liðsstjórar og áhorfendur voru sínum félögum til mikils sóma. Um 1800 þátttakendur frá 20 félögum tóku þátt á mótinu í ár en þetta er í tólfta sinn sem mótið er haldið.

vís í samstarf með ferðafélagi íslands

Júlí
Ferðafélag Íslands (FÍ) og VÍS skrifuðu undir samstarfssamning um Lýðheilsugöngur FÍ. Göngurnar eru einn af hápunktunum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu.

Tilgangurinn með verkefninu er sá að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

VÍS kemur myndarlega að verkefninu enda þekkt fyrir áherslu á forvarnir, heilsueflingu og öryggi. Með þessu samstarfi vilja allir hlutaðeigandi leggja sitt af mörkum til að stuðla að bættri lýðheilsu landans þar sem horft er til líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar auk öryggis- og umhverfisþátta. Faglegir samstarfsaðilar verða Velferðarráðuneytið og Landlæknisembættið.


Hér fyrir neðan má sjá frá því þegar samningur um samstarfið var undirritaður í Heiðmörk.

Gáfu skipverjum hjartastuðtæki

Ágúst
Áhöfnin á Drangey fékk glænýtt hjartastuðtæki að gjöf frá VÍS þegar skipið var vígt og skírt við hátíðlega athöfn. FISK, sem gerir skipið út, og VÍS hafa um árabil verið í öflugu og farsælu forvarnarsamstarfi til sjós í samvinnu við Slysavarnarskóla sjómanna. Það þótt því liggja beint við, þegar kom að því að velja gjöf vegna tilefnisins, að færa skipverjum mikilvægt öryggistæki.

Á tækinu voru svo skilaboð frá VÍS um mikilvægi þess að setja hjartað í öryggismál sjómanna, svo allir komi heilir heim. Þau sem tóku við gjöfinni fyrir hönd áhafnarinnar á Drangey voru þau Guðrún Sighvatsdóttir öryggis- og skrifstofustjóri FISK, Snorri Snorrason skipstjóri á Drangey, Jón Eðvald Friðriksson framkvæmdastjóri FISK og Erla Jónsdóttir fjármálastjóri. Fyrir hönd VÍS afhentu gjöfina þeir Gísli Nils Gíslason sérfræðingur í forvörnum og Bjarni Guðjónsson viðskiptastjóri í sjávarútvegi.

Slysavarnaskóli sjómanna

September
Við höfum um árabil átt í farsælu forvarnarsamstarfi við Slysavarnaskóla sjómanna. Sem lið í því samstarfi afhentum við þeim í dag 10 flotgalla sem nýtast munu við kennslu.

Af því tilefni fékk Helgi, forstjóri okkar, að slást í för með nemendum skólans og prófaði hann hvernig hinir nýju flotgallar virka.

Metfjöldi innskráninga á Mitt vís

Október
Milli áranna 2014 og 2015 tvöfaldaðist fjöldi innskráninga á Mitt VÍS. Milli áranna 2015 og 2016 stóðu innskráningar í stað á milli ára en það má skýra með því að á árinu 2016 var lokað fyrir tengingu inn í Mitt VÍS frá heimabanka Arion.

Árið 2016 og 2017 hafa ýmsar nýjungar verið kynntar á Mitt VÍS og viðskiptavinum markvisst vísað þar inn. Það sem helst má nefna til nýjunga inni á Mitt VÍS er skráning í Vildarþjónustu Icelandair, rafræn endurnýjun trygginga, möguleiki á að uppfæra fyrirtækjatryggingar og tjónstilkynningar kaskótjóna, bíla og húsvagna.

Framúrskarandi þjónusta

Nóvember
Samkvæmt tölfræði frá netspjallinu okkar er einstaklings- og tjónaþjónusta að veita framúrskarandi þjónustu. Ánægjan mældist 96% frá 277 einkunnum.