Forvarnir

Forvarnarstefna

Forvarnir eru hluti af fyrirtækjamenningu VÍS og mikilvægur hlekkur í starfsemi þess. Forvarnir eru sýnilegur hluti af starfsemi félagsins og hafa þann tilgang að fækka slysum og tjónum meðal viðskiptavina og í samfélaginu öllu. Það er sýn VÍS að hægt sé að koma í veg fyrir slys og tjón meðöflugu forvarnastarfi. 


Forvarnarráðstefna VÍS 2017

Forvarnaráðstefna VÍS var haldin í áttunda skiptið og var yfirskriftin „Vinnuslys – dauðans alvara“. Yfir 300 fulltrúar fyrirtækja, sveitarfélaga, opinbera aðila, hagsmuna- og félagasamtaka mættu á ráðstefnuna þar sem sjónum var beint að banaslysum, reglubundnum öryggisúttektum, rafrænni atvikaskráningu, rannsóknum vinnuslysa og vinnuslysum í ferðaþjónustu. Verkfræðiskrifstofan Verkís hlaut Forvarnaverðlaun VÍS 2017 fyrir fyrirmyndarárangur í forvarnar- og öryggismálum. Auk þess fengu Samhentir-Kassagerð og Frumherji sérstaka viðurkenningu fyrir góða árangur í forvarnar- og öryggismálum.

 

Árstíðarbundin skilaboð

Forvarnaskilaboð eru oft og tíðum nokkuð árstíðabundin. VÍS hefur verið öflugt við að koma slíkum skilaboðum á framfæri í miðlum sínum og í gegnum fjölmiðla.

Sígild vetrarskilaboð snúa oft og tíðum að veðri. Þá fá viðskiptavinir skilaboð þar sem varað er við stormi þegar hætta er á eignatjóni, miklum leysingum, snjóhengjum og vondu ferðaveðri. Þá eru viðskiptavinir einnig minntir á mikilvægi þess að skafa bílinn allan hringinn, hvernig koma megi í veg fyrir fallslys þegar hált er og á lengdri hemlunarvegalengd í slíku tíðarfari.

Aðrar umfjallanir sem falla undir veturinn eru skilaboð sem snúa að aðventu, jólum og áramótum. Þar eru brunaforvarnir stór þáttur ásamt flugeldum, fallslysum og vali á gjöfum fyrir yngstu börnin. Á vorin og sumrin snúa umfjallanir um öryggi tengdum hjólreiðum, reiðhjólahjálmanotkun, bifhjól, gönguferðir, hraðakstur, bílbeltanotkun, eftirvagna, útilegur og fleira.

Með haustinu koma svo umfjallanir um skólabyrjun, endurskin, bil á milli bíla, sól lágt á lofti og aukningu umferðar á þéttbýlisstöðum.

Atvik

VÍS hefur síðustu ár unnið að þróun á sérstöku atvikaskráningarforriti sem heitir „ATVIK“. Forritið aðstoðar fyrirtæki og sveitarfélög í viðskiptum hjá VÍS við að fá yfirsýn á hættum í vinnuumhverfinu, slysum, tjónum og næstum slysum. Með góðri yfirsýn er hægt að skapa tækifæri til að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir eða stöðva endurtekin slys og tjón. Á annan tug fyrirtækja nota forritið og hafa á fjórða þúsund starfsmanna þeirra aðgang að kerfinu og geta skráð í það.

Samstarfsverkefni

Árið 2017 var ár samstarfsverkefna hjá VÍS og létum við til okkar taka á því sviði á árinu.

Slysavarnarskóli sjómanna


VÍS hefur síðustu 9 ár verið í formlegu forvarnasamstarfi við Slysavarnaskóla sjómanna sem hefur það markmið að efla öryggismenningu um borð í fiskiskipum og gera störf sjómanna þannig öruggari en þau eru í dag. Helstu leiðarljósin í forvarnasamstarfinu eru virk atvikaskráning og áhættumat á öllum störfum um borð. Á fjórða hundruð sjómanna hjá útgerðum í tryggingum hjá VÍS eru þátttakendur í forvarnasamstarfinu. VÍS hefur líka gefið slysavarnaskóla sjómanna 10 flotgalla á ári síðan 2010 sem hluta af forvarnasamstarfi við skólann.



Eldvarnarbandalagið


Eldvarnabandalagið hefur verið starfrækt frá 2010 en megin markmið þess er að efla eldvarnir. Að bandalaginu standa VÍS, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Félag slökkviliðsstjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Mannvirkjastofnun, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Sjóvá, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM og Vörður.

Meginmarkmið Eldvarnabandalagsins í ár var tvíþætt; að efla eldvarnir á heimilum ungs fólks og leigjenda með fræðslu og öðrum aðgerðum, en rannsóknir sýna að þeir hópar séu berskjaldaðri en aðrir þegar kemur að eldvörnum og áframhaldandi samvinna við sveitarfélög um eigið eldvarnaeftirlit fyrirtækja og stofnana og logavinnu en megin þunginn hefur legið á þeim þætti.

Heimavellir, með 2.500 heimili, bættust við í hóp þeirra leigufélaga sem hafa gert samning um auknar eldvarnir hjá sér. Átta sveitarfélög gerðu samning við bandalagið um eigið eldvarnaeftirlit; Dalvíkurbyggð, Vestmannaeyjar og sveitarfélögin sex sem falla undir Brunavarnir Austurlands. Akureyri, Fjarðarbyggð og Húnaþing voru með virka samninga en Akranes hefur lokið sínum samningi við bandalagið og skilað af sér skýrslu um framgang þess.

Í samstarfinu við sveitarfélögin felst að vera með eldvarnafræðslu fyrir alla starfsmenn og skipun eldvarnafulltrúa sem sjá um mánaðarlegt eftirlit og fylgja því eftir. Eins taka sveitarfélögin upp verklagsreglur bandalagsins um loga vinnu en allt efni sem sveitarfélögin eru að nota kemur frá bandalaginu.



Forvarnarsamstarf með fyrirtækjum


Hugmyndafræði í forvarnasamstarfi með fyrirtækjum og sveitarfélögnum gengur út á að setja fram vel skilgreind markmið og sértækt forvarnaverkefni sem hluta af langtímasamningum þar sem báðir aðilar skuldbinda sig í samstarfið. Lykilforsendan fyrir árangri í samstarfinu er forysta og stuðningur æðstu stjórnenda. Sérfræðingar VÍS í forvörnum framkvæma úttektir á öryggismálum fyrirtækjanna til að greina tækifæri til úrbóta, veita sértæka ráðgjöf og útvega ýmis tól og tæki tengt forvarnasamstarfinu sem VÍS hefur þróað síðan 2008. Sömuleiðis er lögð rík áhersla á vinna með hagsmuna- og félagasamtökum í atvinnulífinu til að stuðla að bættum forvörnum í atvinnulífinu.



Bílaleigur


Töluverðar breytingar hafa orðið í ferðaiðnaði undanfarin ár og hefur færst í vöxt að ferðamenn sæki Ísland heim allt árið. Samhliða því hafa áherslur í forvörnum bílaleiga breyst þar sem tekið er mið af vetrarakstri. Á veturna er lögð áhersla á nagladekk, ljósabúnað, hálku og að umferð sé ekki beint á vegi sem eru lokaðir á hálendinu. Haldnir hafa verið fræðslufundir með starfsfólki bílaleiga og farið yfir hvernig er best að fræða viðskiptavini um öryggi með árstíðabundnar áherslur að leiðarljósi. Efni á heimasíðum fyrirtækja og stofnanna sem sinna ferðaþjónustu skiptir miklu máli svo ferðamenn geti kynnt sér öryggismál í næði áður en þeir koma til landsins.

 

Vöruflutningafyrirtæki


Í forvarnarstarfi hefur verið lögð sérstök áhersla á að fylgjast náið með veðri og færð og ítreka að fyrirtæki starfi eftir varúðarviðmiðum um vind. Hafa sérfræðingar VÍS í forvörnum sent tölvupóst þegar von er á slæmu veðri og reynt að vekja sem mesta athygli á því ef akstursaðstæður fara versnandi. Þá hefur færst í aukana að flutningafyrirtæki framkvæmi áhættumat akstursleiða. Niðurstöður úr slíku mati geta haft áhrif á flotastýringu og leiðarval auk þess sem þær nýtast einkar vel í nýliðafræðslu.



Hópbifreiðar og skólaakstur


Á árinu hvatti VÍS sveitarfélög til þess að setja sér skriflegar starfsreglum um skólaakstur og gera ítarlegar öryggiskröfur með hag barna að leiðarljósi. Hvað hópbifreiðir varðar er brýnt að fá farþega til þess að spenna bílbelti og forða meiðslum sem verða ef rútur fara út af. VÍS mun stuðla að því að öll hópbifreiðafyrirtæki virði varúðarviðmið um vind og að bílstjórar noti ekki farsíma meðan á akstri stendur.

 

Sveitafélög

VÍS tryggir um 60% sveitarfélaga á Íslandi og er í öflugu forvarnasamtarfi með þeim þar sem sjónum hefur sérstaklega hefur verið beint að eld- og slysavörnum hjá stofnunum sveitarfélaganna. Sem hluti af því forvarnasamstarfi innleiddu fjögur sveitarfélög „Eigið eldvarnaeftirlit“ í öllum stofnunum sínum. Sömuleiðis er hugað slysvarnavörnum starfsmanna og skólabarna með öryggisúttektum
viðskiptastjóra VÍS á helstu stofnunum og innleiðingu á rafrænni atvikaskráningu á óhöppum, vinnuslysum og slysum á skólabörnum.

 

Útgerðir


Á annað hundrað sjómenn hjá sjávarútvegsfyrirtækjum í tryggingum hjá VÍS eru þátttakendur forvarnarstarfi félagsins sem hefur það að markaði að efla enn frekar öryggismenningu um borð í fiskiskipum. Leitast er við að koma á skýru og hnitmiðu forvarnastarfi kringum öryggismál sjómanna í samvinnu við fyrirtækin með dyggri aðstoð frá Slysavarnaskóla sjómanna.