Ávarp forstjóra
Öflug á aldarafmælinu
Árið 2017 var tímamótaár fyrir VÍS í mörgum skilningi. Til byrja með náði félagið þeim merka áfanga að verða 100 ára en VÍS á rætur sínar í Brunabótafélagi Íslands sem tók formlega til starfa 1. janúar árið 1917. Stofnun félagsins markaði vatnaskil í brunavörnum hér á landi með veitingu fyrsta einkaleyfis á brunatryggingum utan Reykjavíkur. Fyrsti forstjóri félagsins var sjálfur Sveinn Björnsson sem síðar varð fyrsti forseti lýðveldisins.
Saga VÍS er samofin sögu íslensks atvinnu- og viðskiptalífs og hún endurspeglar þær ótrúlegu framfarir sem orðið hafa í íslensku samfélagi á þessum 100 árum. Og árangurinn er mikill. VÍS er í dag stærsta tryggingafélag landsins með um 90 þúsund viðskiptavini og þriðjungs markaðshlutdeild. Þrátt fyrir að vera aldargamalt félag megum við ekki gleyma okkur í fortíðarljóma og fornum sigrum. Ef við ætlum endurtaka leikinn sem Sveinn Björnsson og félagar léku og ná öðrum eins áföngum verðum við að horfa fram á við.
Við verðum að muna að starfsemin okkar, siðir og venjur eru ekki meitlaðar í stein og bundnar niður af gömlum vana. Þvert á móti. Umhverfið okkar tekur stöðugum breytingum og þar með kröfur viðskiptavina okkar. Ég er sannfærður um að við döfnum best þegar við erum sífellt að leita leiða til að bæta okkur og efla.
2017 var líka tímamótaár í annars konar skilningi hjá félaginu. Þetta var ár mikilla breytinga hjá VÍS. Breytingar voru gerðar á stjórnendahópi félagsins, skipuriti og nýjar áherslur eru komnar fram í stefnu okkar og skipulag.
Þessar breytingar endurspegla að mörgu leyti það sem áður hefur verið nefnt. Til þess að vera áfram í fremstu röð þarf stöðugt að huga að leiðum til að sækja fram og grípa þau tækifæri sem hið síbreytileg umhverfi sem við búum við býður upp á. Breytingunum er ætlað að efla samvinnu til að bæta þjónustu við viðskiptavini og einfalda hana, meðal annars með stafrænum lausnum.
Það er ekki alltaf auðvelt að takast á við breytingar. Margir sjá í þeim ógnanir eða ögrun við hlutverk sitt eða stöðu. Það hefur því komið mér þægilega á óvart hversu vel samstarfsfólk mitt hjá VÍS hefur tekið í þær hugmyndir og árherslubreytignar sem hafa verið kynntar hérna undanfarið. Mér finnst það vera til marks um að hér vinnur öflugt og gríðarlega hæft fólk sem hefur trú á því sem það er að gera.
Ég trúi því að þær breytingar sem gerðar voru á félaginu á árinu og þær áherslubreytingar sem birtast í nýju skipuriti geri okkur kleift að vinna stóra sigra á næstu misserum og verði til þess að tryggja að saga VÍS verði áfram vitnisburður um öflugan burðarás í íslensku atvinnulífi.
Árið 2017 var gott tryggingaár. Samsett hlutfall var 95,3% og undir 100% í fyrsta sinn í fjögur ár. Þessi góða afkoma er aðallega borin uppi af bættum rekstri skaðatrygginga, sem eru lang stærsti hluti vátryggingastarfsemi félagsins. Undirstaðan af þessum árangri er að iðgjöld standa mun betur undir tjónagreiðslum en áður. Iðgjöld ársins voru rúmir 20 milljarðar króna, sem er vöxtur upp á 12% en tjónakostnaður hækkaði á sama tíma um 3,6%. Á árinu greiddum við tæpa 15 milljarða króna í tjónabætur til viðskiptavina okkar.
Sem fyrr leika forvarnir mikilvægt hlutverk í vátryggingastarfsemi okkar. Öryggissérfræðingar okkar vinna þétt með mörgum viðskiptavinum að því að efla öryggismenningu í starfsemi þeirra. Margra ára reynsla okkar af þessu starfi sýnir svo ekki sé um villst hversu árangursríkt öflugt forvarnarstarf getur verið. Tjónatíðni í fyrirtækjum sem vinna með okkur að krafti í forvörnum minnkar og slysum starfsmanna fækkar. Þetta er gott dæmi um viðskiptasamband þar sem allir græða.
Frá árinu 2011 höfum við hægt en örugglega byggt upp starfsemi í erlendum endurtryggingum. Iðgjöld af þessari starfsemi nema nú um einum milljarði króna á ári. Samsett hlutfall þessarar greinar hefur að meðaltali verið gott, betra en samsetta hlutfallið í skaðatryggingum félagsins. Einkenni þessara trygginga er lítil hlutdeild í stóráhættum eins og skógareldum, jarðskjálftum og fellibyljum. Þetta er því áhætta sem raungerist hratt en situr ekki í bókum félagsins sem óvissa til margra ára. Árið 2017 var óvenju slæmt ár í þessum geira sem orsakast m.a. af jarðskjálftum í Mexíkó, fellibyljum í Bandaríkjunum í upphafi og skógareldum í Portúgal. Við sáum samskonar ár síðast árin 2011 og 2005. Þrátt fyrir sögulega slæmt ár var jákvæð afkoma af erlendum endurtryggingum á árinu og samsett hlutfall af þessari starfsemi lækkar að jafnaði samsett hlutfall samstæðunnar.
Þriðja stoðin undir vátryggingastarfsemi okkar eru líftryggingar. Afkoman þar er mjög góð með samsett hlutfall upp á 73% en hlutdeildin á markaði er minni en í skaðatryggingum. Það ætti því að vera tækifæri til sóknar.
Við teljum það henta rekstri okkar vel að dreifa vátryggingaáhættunni með þeim hætti sem við gerum; í skaðatryggingar, líftryggingar og erlendar endurtryggingar. Þrátt fyrir að afkoma af vátryggingarekstri hafi verið góð og samsett hlutfall sterkt er kostnaður hár sem skýrist aðallega af kostnaði við innleiðingu á tölvukerfi ásamt kostnaði við skipulagsbreytingar. Þá var afkoma af fjárfestingum undir væntingum sem skýrist að mestu af óhagstæðri þróun á hlutabréfamarkaði. Í árslok lukum við endurskoðun á fjárfestingastefnu félagsins sem ætlað er að draga úr áhættu safnsins og minnka sveiflur. Áhættuvilji félagsins var rýndur og er óbreyttur og miðast við að gjaldþolshlutfall samstæðunnar sé á bilinu 1,35 – 1,7. Þá höfum við jafnframt væntingar um bætta ávöxtun fjárfestingaeigna á næstu misserum.
VÍS eignaðist um 23% hlut í Kviku á árinu. Við teljum Kviku vera góðan fjárfestingakost sem hefur þegar sannað gildi sitt. Þar sem eignarhluti okkar í Kviku er yfir 10% af eiginfé þá gætir áhrif þess töluvert í gjaldþolshlutfalli VÍS en þrátt fyrir það er gjaldþolshlutfallið gott og vel innan áhættuvilja félagsins. Það stóð í 1,59 um áramót en verður 1,42 ef tillögur um arð og endurkaup ganga eftir.
Á árinu stórefldum við líka upplýsingagjöf til markaðarins og þjónustu við hluthafa og fjárfesta almennt. Mánaðarleg birting samsetts hlutfalls dýpkar að okkar mati skilning markaðarins á rekstri okkar. Birtingin gefur okkur einnig tækifæri til að vera kvikari í öllum ákvörðunum okkar í tengslum við vátryggingarnar. Upplýsingar sem áður voru eingöngu fyrir innherja svo vikum skipti geta nú verið tæklaðar mun fyrr.
Þjónusta við viðskiptavini og stafræn þróun var sett á oddinn í skipuriti félagsins á árinu. Við trúum því að það sé mikilvægt að í félaginu sé vettvangur til að koma í réttan farveg öllum þeim tækninýjungum sem við sjáum allt í kring um þessar mundir. Tækifærin í tækninni bjóða upp á nánast óendanlega möguleika til að bæta þjónustu, auka tekjur og lækka kostnað. Til þess að hægt sé að grípa tækifærin þarf að fjárfesta í það bæði tíma og kröftum. Það þarf skýra sýn og gott skipulag. Stafræn þróun er slíkur vettvangur og við bindum miklar vonir við að þaðan komi súrefni sem eflir starfsemina á öllum sviðum.
Íslenski tryggingamarkaðurinn er ekki stór eða um 350 þúsund einstaklingar eða 80 þúsund fjölskyldur. Meirihluti iðgjalda kemur frá bílatryggingum, lögbundnum sem og kaskótrygginum þar sem samsett hlutfall hefur sögulega verið hátt. Hagnaður íslenskra tryggingafélaga hefur oftar en ekki verið borinn uppi af umfangsmikilli fjárfestingastarfsemi. Um leið og fjárfestingar eru mikilvægur hluti af starfsemi tryggingafélaga þá leggjum við áherslu á að undirstöðurnar í rekstrinum okkar, vátryggingarnar, séu reknar á ábyrgan hátt og standi undir sér.
Það á ekki, og má ekki, líta á það sem sérstakt fagnaðarefni ef samsett hlutfall tryggingafélags nær undir 100%. Hér á Íslandi, eins og í nágrannalöndum okkar, hljótum við að gera kröfu um að sanngjarn ávinningur sé af grunnrekstri skráðs félags sem hefur mörg hundruð ólíka hluthafa, innlenda sem erlenda. Lífeyrissjóði og einkafjárfesta. Ef horft er til sögunnar er það stór áskorun að viðhalda samsettu hlutfalli undir 100% en þetta er grundvallaratriði í okkar rekstri.
Eins og hér hefur verið rakið var 2017 ár tímamóta í ýmsum skilningi. Við teljum hins vegar að árið 2018 sé ár mikilla tækifæra. Ég bind miklar vonir við að það stjórnendateymi sem myndað hefur verið sé vel í stakk búið til að sækja fram á öllum vígstöðvum, ásamt því öfluga starfsfólki hér starfar. Við höfum stillt upp liðinu og teiknað upp leikkerfið, nú er bara að skora mörkin.
Helgi Bjarnason,
Forstjóri