Hröð samfélags- og tækniþróun er að breyta rekstri fyrirtækja í flestum atvinnugreinum. Ör þróun undanfarinna ára hefur breytt
samskiptum fólks, kaupmáttaraukning hefur stuðlað að aukinni hagsæld, viðhorf til stórra samfélagsmála hafa breyst og framfarir í vísindum lengt líf fólks um allan heim. Breytingarnar hafa sett mark á íslenska og erlenda tryggingarþjónustu, sem stendur á tímamótum.
VÍS hefur skýra sýn á hlutverk sitt í breyttum heimi. Við ætlum að þróast og breytast með samfélaginu og bjóða á hverjum tíma þjónustu í takt við þarfir viðskiptavina. Við ætlum að grípa þau tækifæri sem tækniframfarir og þróun leiða af sér. Við ætlum að byggja á reynslu síðustu 100 ára og taka þátt í að bæta líf okkar viðskiptavina. Við ætlum að vera eftirsóknarverður vinnustaður og sýna ábyrgð í rekstri.
Markmiðið er að VÍS verði öflugt vátryggingafélag sem standi keppinautum sínum framar, veiti viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu, sé eftirsóknarverður vinnustaður og skili eigendum sínum sanngjörnum arði.
Hugmyndir sem fyrir fáum árum þóttu fjarstæðukenndar eru nú orðnar að veruleika. Þær auðvelda neytendum lífið og skapa í leiðinni viðskiptatækifæri fyrir VÍS, enda verður sífellt auðveldara fyrir fólk að nýta sér okkar þjónustu með þægilegum og einföldum hætti. Nær allir viðskiptavinir nota snjalltæki,sem sífellt verða snjallari og nýtast eigendum í leik og starfi. Hugmyndir um að símtæki skynji sjálfkrafa aðstæður notandans og bjóði honum að uppfæra sína tryggingarskilmála má heyra víða. Til dæmis að notandinn sé að renna sér á skíðum og bjóði honum að kaupa frístundatryggingu með einum smelli eða að símtækið finni sjálfkrafa á ljósmyndum notandans nýja innanstokksmuni og bjóði honum að kaupa nýja innbústryggingu. Að bílar skynji sjálfkrafa hver sitji undir stýri og bjóði breytingar á tryggingavernd til samræmis við það, svo fáein dæmi séu nefnd.
Tæknibreytingarnar hafa hins vegar ekki dregið úr þörf notenda fyrir góða tryggingavernd og góða þjónustu. Þvert á móti sjáum við merki þess, að viðskiptavinir óski nú eftir meiri vernd en áður og áhuginn á frístundatryggingum, ferðatryggingum, heilsu- og líftryggingum er að aukast. VÍS ætlar að uppfylla þessar óskir, rækta sambandið við viðskiptavini sína enn betur en áður, leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu og freista þess að auka þannig tryggð viðskiptavina við fyrirtækið.
Árið 2017 einkenndist af miklu breytingum í rekstri VÍS. Stefna félagsins í mikilvægum málum breyttist, miklar breytingar urðu í stjórnendahópnum, skipulagi félagsins var breytt sem og áherslum í rekstrinum. Nú er það til dæmis skýlaus krafa, að tryggingareksturinn standi undir sér enda er óeðlilegt til lengri tíma að fjárfestingatekjur borgi niður taprekstur af kjarnastarfsemi félagsins. Viðbrögðin innandyra við þessari kröfu voru aðdáunarverð, því á stuttum tíma náðist samsetta hlutfallið niður fyrir 100% og starfsfólk félagsins er samstíga í þeirri viðleitni að halda því þar. Í sögulegu samhengi er það metnaðarfullt markmið, en ef horft er til sambærilegra fyrirtækja annars staðar á Norðurlöndum er það fullkomlega raunhæft. Raunar er áhugavert að horfa til tryggingarfélaga á Norðurlöndum varðandi ýmsa aðra þætti. Til dæmis er verulegur munur á fjármagnsskipan íslenskra tryggingarfélaga og skandinavískra, sem búa fyrir vikið við minni áhættu í rekstrinum. Eigið fé þeirra er lægra og gjaldþolið meira. Það kann að vera tímabært að kanna vandlega kosti þess fyrir VÍS að færa sig í átt að þessu norræna módeli. Enginn afsláttur verður þó gefinn af kröfunni um góða ávöxtun fjárfestingaeigna, sem áfram mun gegna mikilvægu hlutverki í rekstrinum. Sá þáttur starfseminnar hefur fengið aukið vægi, enda mikil verðmæti fólgin í eignasafni félagsins.
VÍS ætlar sér og hefur alla burði til að vera leiðandi aðili á íslenskum tryggingamarkaði. Félagið hvílir á traustum grunni og innviðirnir eru sterkir. Starfsfólkið er reynslumikið, vöru- og þjónustuúrvalið er fjölbreytt og viðskiptamannahópurinn stór. Á liðnu starfsári voru allir þessir þættir efldir, með sérstakri áherslu á stafrænar lausnir sem bæta þjónustuna, upplifun viðskiptavina og skila hagræðingu í rekstrinum. Við erum hvergi nærri hætt og komandi ár mun einkennast af því sama.
Á síðustu árum hefur rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja tekið stakkaskiptum og aðstæður á fjármálamarkaði eru góðar. Efnahagskerfið hefur vaxið mikið en verðbólga haldist lág. Kaupmáttur hefur hækkað meira en dæmi eru um og skuldir heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs hafa lækkað. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hafa augun á boltanum, móta skýra framtíðarsýn og byggja ákvarðanir á langtímamarkmiðum. Það hefur verið leiðarljós stjórnar VÍS og við fögnum þeim áhuga sem erlendir fjárfestar hafa sýnt félaginu. Með innkomu þeirra hefur fjárfestahópurinn orðið fjölbreyttari og kröfuharðari, sem heldur stjórendum félagsins við efnið. Við erum ánægð með afkomu ársins 2017, en það er okkar markmið að bæta rekstrarárangurinn frá ári til árs og skila eigendum VÍS sanngjörnum arði af fjárfestingu sinni.
Á þessu ári ætlum við að gera enn betur en á því síðasta. Starfsfólk VÍS veit hvert það ætlar og við göngum einbeitt inn í nýtt rekstrarár. Við finnum fyrir meðbyr og við sjáum tækifæri á markaðnum. Við hlökkum til að grípa þau.
stjórnarformaður